Skólabyrjun ágúst 2014

Upplýsingar til nemenda og forráðamanna 8. bekkinga.

Í vetur verður skipulag náttúrufræðinnar þannig að starfsvetrinum er skipt upp í mislangar lotur sem við köllum hlekki.  Í hverjum hlekk vinnum við með afmarkaða námsþætti.  Ekki verður fylgt námsbókum, heldur valið efni notað til stuðnings í náminu hverju sinni.  Um námsmarkmið vísast í skólanámsskrá en við fylgjum nýrri aðalnámsskrá greinasviða sem var gefin út á síðasta ári.  Ekki eru lengur tiltekin mörg þekkingarviðmið heldur eru stór hæfnimarkmið sett fram og munum við nálgast þau eftir bestu getu.  Flúðaskóli er heilsueflandi útikennsluskóli og tökum virkan þátt í því starfi.  Auk þess er skólinn í þróunarverkefninu orð af orði og mun náttúrufræðikennslan taka mið af því.  Kennara er jafnframt hugleikið að efla gagnrýna hugsun og pælingar sem verður nálgast með aukinni heimspekiumræðu og rökþrautum.  Allt þetta styður við grunnþætti menntunar.

Í stundaskrá 8. bekkjar eru náttúrufræði 4 kennslustundir á viku.    Ég gef út annarplan sem nemendur fá í hendur og birtist líka á heimasíðu skólans. Hér á síðunni koma fram allar upplýsingar um námið,  auk  þess mun ég setja inn nákvæmara heimanám í Mentor.  Vonandi getið þið sem flest nýtt ykkur þetta. 

Fyrirkomulagið í tímum verður þannig:  Á mánudögum er fyrirlestratími, lagt inn nýtt efni,  farið yfir hugtök, sýnikennsla og myndbönd til að auka skilning.  Þá eru afhentar glósur sem ætlast er til að nemendur bragðbæti.  Spjaldtölvur nýtast vel í þessum tímum en stór hluti fyrirlestra er í nearpod-appi.    Á miðvikudögum eru vinnu- og tilraunatímar þá er unnið með námsefnið í gegnum umræður,  verkefni,  hópavinnu og  framkvæmdar tilraunir og athuganir.  Í þessum tímum nýtum við okkur stöðvavinnu og eins höfum við möguleika á að komast í tölvuver.  Á föstudögum er stakur tími sem nýtist í  til að skoða bloggfærslur, taka kannanir, horfa á fræðslumyndir og fleira.  Í byrjun hvers hlekks er gert hugtakakort með nýjum orðum og tengingum.  Þetta skoðum við reglulega og nýtum sérstaklega til að taka saman aðalatriði hlekksins.

Við verðum nokkuð úti við námið, sérstaklega nú í haust og svo þegar vorar.  Þá er mikilvægt að koma vel búinn til útiveru.

Heimanámið  byggist á því að nemendur haldi úti bogg-síðu  með  vikulegum færslum.  Auk þess getur þurft að klára skýrslur og stærri verkefni heima.

Flúðaskóli leggur áherslu á fjölbreytt námsmat.  Við munum skoða:  Verkefna- og skýrsluskil, bloggsíðu, hópvinnuverkefni, frammistöðu í hópavinnu og tímum, ástundun, kannanir og próf.   Leiðsagnarmat hefur fengið mikið vægi og nemendur fá afhenta matslista fyrir hlekkina og flest verkefni.

Í lokin vil ég minna á að viðtalstíminn er á mánudögum kl. 13:50-14:30.   Endilega að hafa samband. 

Hlakka til samstarfsins.

Kveðja, Gyða Björk.